Fasteignafélagið Kaldalón hefur boðað hluthafafund á fimmtudaginn 16. desember. Á dagskrá fundarins er fyrirhuguð skráning félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar á næsta ári en Kaldalón er í dag skráð á First North-markaðinn.

Meðal tillagna sem lagðar verða fram á fundinum er að stjórn Kaldalóns fái heimild til að hækka hlutafé félagsins um 3,5 milljarðar að nafnverði í tengslum við skráningu félagsins á aðalmarkaðinn. Miðað við hlutabréfaverð Kaldalóns í dag gæti félagið sóst eftir allt að 6,5 milljörðum króna í hlutafjáraukningu samhliða skráningu á aðalmarkaðinn. „Það er mat stjórnar félagsins að slík hækkunarheimild muni gefa félaginu aukinn slagkraft til stækkunar,“ segir í fundarboðinu .

Þegar Kaldalón tilkynnti fyrst um áformin að fara á aðalmarkað kom fram að Arion banki hafi gert viljayfirlýsingu um að sölutryggja allt að 5 milljarða króna í nýju hlutafé í tengslum við skráninguna.

Breyttur tilgangur félagsins

Til stendur að hækkunarheimildin í tengslum við skráninguna gildi til 16. desember 2022. Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið sé ekki tilbúið að greina frá nánari tímaramma utan um útboðið.

Einnig er lagt til að tilgangi félagsins verði breytt til þannig að höfuðáhersla verður lögð á eignarhald fasteigna með fastar tekjur, í stað fasteignaþróunar en þó mun tilgangur félagsins áfram lúta að fasteignaþróun, m.a. vegna fyrirliggjandi fasteignaþróunarverkefna félagsins. Þá mun tilgangur félagsins einnig fela í sér fjárfestingastarfsemi, lánastarfsemi og annan skyldan rekstur.

Jón Þór bendir á að Kaldalón hefur verið í umbreytingarferli að undanförnu með það að markmiði að félagið fari úr því að vera fasteignaþróunarfélag og leggi þess í stað áherslur á tekjuberandi fasteignir, til að mynda með kaupum á fasteignum sem hýsa hótel eða vöru- og geymsluhúsnæði .

„Fólk hefur viljað koma með í vegferðina“

Þá verður lögð fram tillaga um að stjórn verði veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 6 milljarða króna að nafnverði til að unnt sé að gefa út hluti í félaginu sem endurgjald í viðskiptum með fasteignir eða fasteignafélög.

Jón Þór segir að félagið hafi nýtt talsvert að núgildandi heimild til að gefa gefa út nýtt hlutafé án forgangsréttar hluthafa sem hljóðaði upp á 6 milljarða, sem hefur m.a. verið nýtt sem endurgjald í fasteignaviðskiptum. „Fólk hefur viljað koma með í vegferðina og verða hluthafar. Vil teljum því rétt að færa þá heimild aftur upp í sex milljarða,“ segir Jón Þór.