Starfsgreinasamband Íslands hafði boðið verkfallsaðgerðir 10. apríl en dómur félagsdóms í máli tæknimanna hjá RÚV setti þau áform í uppnám. Nú hefur verið ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðsluna og verður hún haldin í þessari eða næstu viku. Stefnt að því að verkfall hefjist um næstu mánaðamót.

„Við ætluðum að vera með svæðisbundin verkföll þar sem inn á milli gæfist andrými til samningaviðræðna," segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS. „Þær áætlanir hafa breyst og nú er stefn að því að keyra þetta örar eða með öðrum orðum þá erum við að boða harðari aðgerðir."

Samningaviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins eru í hnút.

„Það er hvorugur aðilinn beinlínis að biðja um fundi og því hittumst við bara á þessum lögboðnu fundum hjá sáttasemjara sem eru haldnir á tveggja vikna fresti. Næsti fundur er í næstu viku."

Verkfall Starfsgreinasambandsins mun ná til um 10 þúsund félagsmanna og helst bitna á fiskvinnslu, kjötvinnslu í sláturhúsum, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .