Í hlutafjárútboði Icelandair Group sem lauk 17. september síðastliðinn gaf félagið út áskriftarréttindi til fjárfesta sem kveða á um heimild fjárfesta til að kaupa ný bréf í félaginu á fyrirfram ákveðnu gengi. Hver fjárfestir hefur áskriftarréttindi fyrir allt að 25% af nafnvirði þeirra hluta sem hann fékk úthlutað og er þriðjungur þeirra til nýtingar nú. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sjá einnig: Boð upp á 37 milljarða í Icelandair

Áskriftarréttindin samanstanda af þremur sjálfstæðum flokkum, hver með sitt auðkenni, nýtingartímabil og gengi. Nýtingartímabil áskriftarréttinda í flokknum ICEAIRW130821 (ISIN  IS0000032266) hefst 4. ágúst næstkomandi og er eindagi greiðslu 19. ágúst. Gengið fyrir þennan flokk er 1,13 krónur á hlut. Lokadagur viðskipta með áskriftarréttindin er 30. júlí 2021.

Icelandair Group mun gefa út nýja hluti í félaginu sem jafngilda fjölda þeirra áskriftarréttinda sem nýttir verða. Reiknað er með að afhending nýrra hluta ásamt töku þeirra til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland fari fram eigi síðar en 31. ágúst næstkomandi.

Nýting áskriftarréttindanna fer þannig fram að skráðir eigendur fá tilkynningu frá því fjármálafyrirtæki sem er vörsluaðili bréfanna hvað varðar greiðslufyrirmæli. Greiðslufyrirmælin verða í formi innheimtukrafna sem birtast munu í netbanka hvers fjárfestis. Greiðsla innheimtukrafnanna er valkvæð en greiðsla jafngildir yfirlýsingu um að fjárfestir hyggist nýta áskriftarrétt sinn.