Efling og VR hafa boðað kosningu meðal félagsmanna sinna um ótímabundna vinnustöðvun á hótelum og rútufyrirtækjum frá og með 1. maí næstkomandi. Á vef Eflingar er greint frá því að verkfallsaðgerðir muni hefjast 18. mars og ná til 40 hótela og allra hópbifreiðafyrirtækja á félagssvæði Eflingar verði þær samþykktar í atkvæðagreiðslu félagsmanna. VR hefur boðað til áþekkrar atkvæðagreiðslu meðal sinna félagsmanna.

Félagsmenn Eflingar samþykktu í gær verkfall hreingerningarfólks á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þann 8. mars. Félagsdómur á hins vegar eftir að úrskurða um hvort atkvæðagreiðsla verkfallsins hafi verið lögleg. Kjörsókn í kosningunni var 11%.

Kosið verður um fulla vinnustöðvun hjá Eflingarfólki frá miðnætti til miðnættis á eftirtöldum dögum:

  • 22. mars 2019
  • 29. mars 2019
  • 5. apríl 2019
  • 11. apríl 2019
  • 17. apríl 2019
  • 25. apríl 2019

Hafi samningar ekki náðst 1. maí verður ótímabundið verkfall.

Auk þess á að boða til smærri verkfallsaðgerða á tímabilinu 18. mars til 30. apríl á þeim dögum sem falla utan fullrar vinnustöðvunar. Þær aðgerðir fela í sér að starfsmenn mæta til vinnu en fella niður einstaka verkþætti sem kynna á nánar síðar.