Seðlabanki Íslands hefur boðað til nýs blaðamannafundar á morgun klukkan 10, sem streymt verður frá í beinni útsendingu, en þar boðar bankinn kynningu á aðgerðum í peningamálum og stöðu og horfum í efnahagsmálum, en þetta er þriðji miðvikudagurinn í röð sem bankinn heldur blaðamannafund.

„Kynningin verður í höndum Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra og formanns peningastefnunefndar, og Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóra sviðs hagfræði og peningastefnu,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt ítarlega frá hélt Seðlabankinn tvo peningastefnufundi, ásamt meðfylgjandi blaðamannafundum, síðustu tvo miðvikudaga, þar sem vextir voru lækkaðir um 1 prósentustig samanlagt vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19.

Nú segir bankinn að fulltrúum fjölmiðla og fjármálafyrirtækja sé boðið til kynningar á ákvörðun peningastefnunefndar um kaup á ríkisskuldabréfum sem Viðskiptablaðið sagði frá á mánudag . Jafnframt verður bein vefútsending frá fundinum og er fulltrúum fyrrnefndra aðila bent á að senda mögulegar spurningar í tölvupósti, en jafnframt eigi að senda þangað tilkynningu um mætingu.