*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 10. janúar 2020 15:31

Boða verkfall á leikskólum

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áformað er að hefjist í næsta mánuði.

Ritstjórn
Það er baráttuhugur í samninganefndinni.

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áformað er að hefjist í næsta mánuði. Eftir á að leggja tillöguna í dóm félagsmanna Eflingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stéttarfélaginu.

Í tilkynningunni segir að til að byrja með verði vinna lögð niður í hálfan dag þann 4. febrúar en síðan daglangt þann 6. febrúar. Vikuna á eftir verður á ný hálfsdags verkfall á þriðjudegi en stopp allan miðvikudaginn og fimmtudaginn. Allsherjarverkfall á síðan að hefjast mánudaginn 17. febrúar ef samningar hafa ekki náðst fyrir þann tíma.

Vinnustöðvunin, ef hún verður samþykkt, mun koma til með að taka til félagsmanna Eflingar sem vinna hjá borginni. Kjarasamningur aðila rann út 31. mars í fyrra. Rúmlega 1.800 starfsmenn starfa samkvæmt kjarasamningnum en þar af eru yfir 1.000 á leikskólum borgarinnar og 710 í umönnunarstörfum á velferðarsviði.

„Reykjavíkurborg hefur enga viðleitni sýnt til að koma til móts við vanda láglaunafólksins sem heldur uppi grunnþjónustu borgarinnar eða til að standa við eigin fagurgala um borgina sem vinnustað jöfnuðar. Reykjavíkurborg hefur sýnt starfsfólki sínu á lægstu laununum vanvirðingu í þessum viðræðum, með framkomu sinni, töfum og sinnuleysi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við höfum fengið nóg. Við krefjumst þess að gengið verði frá sanngjörnum samningi sem fyrst. Við bindum vonir við fundinn í næstu viku.“

Stikkorð: Efling Kjaramál verkfall