Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála-ö og efnahagsráðherra hafa boðað til blaðamannafundar um höfuðstólsleiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána. Fundurinn fer fram í Kaldalóni, sal í Hörpu og hefst hann klukkan fjögur síðdegis á morgun.

Á fundinum verða kynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána. Einnig mun Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, fara yfir forsendur, framkvæmd og áhrif aðgerðanna.

Þessa blaðamannafundar hefur verið beðið með gríðarlegri eftirvæntingu að undanförnu. Það sést ekki síst á því að miklar sviptingar hafa verið á skuldabréfamarkaði undanfarna daga. Fátt er vitað um aðgerðirnar annað en að þær munu felast í beinni lækkun höfuðstóls lána og tækifærum fólks til þess að nýta séreignarsparnað til þess að greiða niður höfuðstól lána á næstu árum.

VB.is mun segja ítarlega frá gangi mála á morgun.