Leiðtogar allra evruríkjanna munu hittast á neyðarfundi næstkomandi mánudag til þess að ræða skuldastöðu Grikklands. BBC News greinir frá þessu.

Á fundinum verður gerð tilraun til þess að ná samkomulagi milli Grikklands og alþjóðlegra lánardrottna, sem hingað til hefur reynst afar torsótt. Fjármálaráðherrar evruríkjanna hittust síðast á fundi í gær og reyndist hann árangurslaus.

Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi fjármálaráðherraráðs evruríkjanna, sagði eftir fundinn í gær að of lítill árangur hefði náðst í samningaviðræðunum og samkomulag væri ekki í augsýn. Grikkir hafa nú minna en tvær vikur til þess að ná samningum við lánardrottna, en ella mun landið fara í greiðsluþrot.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, kveðst aftur á móti vongóður um að samkomulag náist í tæka tíð. Segir hann neyðarfundinn á mánudag jákvætt skret í átt að samningum og þeir sem spáð hafi greiðslufalli landsins muni hafa rangt fyrir sér.