Yfirmenn Ríkisútvarpsins hafa boðað til fundar með starfsmönnum fyrirtækisins klukkan tíu í fyrramálið. Ástæðan er grafalvarleg rekstrarstaða en stjórn RÚV ohf. sendi tilkynningu til Kauphallar Íslands í kvöld þar sem gert er grein fyrir rekstrarstöðunni.

Í tilkynningunni til Kauphallarinnar segir að gert sé ráð fyrir að 357 milljóna króna tap verði af rekstri Ríkisútvarpsins ohf. á yfirstandandi rekstrarári. Stjórn RÚV ohf. hefur vegna þessa óskað eftir óháðri úttekt á fjármálum Ríkisútvarpsins.

Í tilkynningunni kemur fram að nú stefni í talsvert meira tap en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir. Eins og kunnugt er var tugum starfsmanna sagt upp störfum síðla á síðasta ári.

Í tilkynningu til starfsmanna segir að boðað sé til starfsmannafundar á Markúsartorgi til að ræða hana og önnur mál. Ekki kemur fram hvaða önnur mál það eru.