Frumvarp til fjáraukalaga var lagt fyrir þingið í síðustu viku. Að mati greiningardeildar Landsbankans er boðaður halli í fjáraukalögum fáheyrður og hvorki í samræmi við þá umræðu sem hefur farið fram um ríkisfjármál né þá nauðsyn að ríkisfjármálin taki mið af hagsveiflunni. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá bankans.

Frumvarpið er talsvert einstakt að því leytinu til að það sé annað fjáraukalagafrumvarpið af tveimur sem lagt er fyrir á árinu 2016. Einnig bendir bankinn á að niðurstöðutala þess sé neikvæð um nærri því 80 milljarða króna, sem passar ekki vel inn í umræðuna sem hefur farið fram upp á síðkastið um stöðu fjármála.

Aukin umsvif hafa jákvæð áhrif

Aukin umsvif í samfélaginu hafa haft mjög jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs að mati greiningardeildarinnar. „Á sama tíma hefur ekki tekist sérstaklega vel að halda aftur af útgjöldum þannig að rekstrarniðurstaða batni. Frá fjárlögum ársins 2016 er nú reiknað með að tekjur án stöðugleikaframlaga aukist um 90 ma. kr. en gjöld aukist um 135 ma. kr,“ er tekið fram í Hagsjánni.

Þar með verður frumjöfnuður jákvæður um 64 milljarða króna, en ekki eins og upphaflega var reiknað með, að hann yrði neikvæður um 22 milljarða. Heildarjöfnuður verður hins vegar neikvæður um 77 milljarða króna í stað þess að vera jákvæður um 7 milljarða eins og fjárlög kváðu á um.

Arðgreiðslur vega þungt

Stærstu breytingar í tekjuliðum ríkissjóðs eru tekjur ríkissjóðs af arðgreiðslum vegna fyrirtækja í eigu ríkissjóðs. Einnig verða tekjuskattar einstaklinga 12 milljörðum krónum meiri en gert var ráð fyrir og einnig hækka tekjur vegna virðisaukaskatt svipað mikið. Þar vegur þyngst hækkanir á launum og aukin velta í hagkerfinu.

Helsta útgjaldaaukinn kemur til vegna einskiptisgreiðslu til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í tenglum við jöfnun lífeyrisréttinda, eða því sem nemur 108,5 milljarðar króna, auk yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimila og samtaka í velferðarþjónustu, 9,5 milljarðar króna.

„Breytingar á öðrum útgjaldaliðum eru mun minni og sumar neikvæðar. Fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs eykst um tæpa 5 ma. kr. aðallega vegna mikilla tekna af arðgreiðslum. Útgjöld til sjúkratrygginga aukast um rúma 3 ma. kr. og um 1 ma. kr. til lífeyristrygginga. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs lækkar um tæpa 3 ma. kr., aðallega vegna lægri skulda. Þá lækka útgjöld til atvinnuleysistrygginga, barnabóta og vaxtabóta frá því sem áætlað var,“ er tekið fram að lokum í Hagsjánni.