Indverska félagið Adani Group, sem stofnað var af milljarðamæringnum Gautam Adani, hefur boðað rúmlega 100 milljarða dala fjárfestingar næsta áratuginn og þá aðallega í orkuskiptageiranum. Reuters greinir frá.

Gautam Adani, sem er þriðji ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes yfir milljarðamæringa sem uppfærist í rauntíma, stofnaði félagið árið 1988 og hefur frá þeim tíma fjárfest innan hinna ýmsu geira. Hann hefur þó mest lagt upp úr innviðafjárfestingum í nánu samstarfi við ríkisstjórn indverska forsætisráðherrans Narendra Modi.

Adani Group á til að mynda nokkra flugvelli í Indlandi og fer um fjórðungur af heildar ferðamannafjöldanum í Indlandi í gegnum flugvelli félagsins. Þar að auki á félagið flugvelli sem standa undir 40% af fraktflugi til og frá landinu.