Alan Joyce, forstjóri ástralska flugfélagsins Qantas Airways, fullyrðir að senn muni flugfélagið geta boðið upp á yfir tuttugu klukkustunda beint flug. Qantas hóf verkefnið Project Sunrise, á síðasta ári, þar sem félagið skoraði á flugvélaframleiðendurna Boeing og Airbus að finan leiðir til að geta flogið í áætlunarflugi með um 300 farþega í 20 tíma beinu flug.

Joyce segist ánægður með þær hugmyndir sem Airbus og Boeing hafi lagt til og stefnir Qantas nú á að koma á beinu flugi frá Sydney til bæði London og New York frá og með árinu 2022. Áætlunarflug milli Sydney og London tæki ríflega 20 klukkustundir en um 17 klukkustundir að fljúga á milli New York og Sydney.

Qantas er með bæði Airbus A350 og Boeing 777X til skoðunar að því er Bloomberg greinir frá . Joyce segir stefnt að því að panta vélar strax á næsta ári.

Í október mun Singapore Airlines taka fram úr Qatar Airways sem það flugfélag sem býður upp á lengsta áætlunarflugið. Singapore Airlines mun þá hefja á ný beint áætlunarflug á milli New York og Singapúr sem taka mun um 19 klukkustundir en í dag er áætlunarflug Qatar Airways milli Doha í Katar og Auckland á Nýja Sjálandi það lengsta í heimi.