Seðlabanki Íslands kynnti í gær ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um eitt prósentustig og eru þeir því 3,75% eftir hækkunina. Seðlabankinn grípur til þessara aðgerða vegna áframhaldandi aukningar verðbólgu og versnandi verðbólguhorfa, en í apríl mældist verðbólga 7,2%. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi.

Á vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar í gær nefndi Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri mikilvægi þess að hið opinbera myndi ekki grípa til almennra aðgerða til að milda áhrif verðbólgunnar. Frekar ætti að horfa til sértækra aðgerða ef stjórnvöld ætluðu yfirhöfuð að grípa inn í, í ljósi þess að verðbólgan virki sem eins konar skattur sem bitni verst á þeim sem hafi lægri tekjur.

Aðspurður telur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að háar verðbólgutölur kalli á að hugað sé að stöðu þeirra sem minnst hafi á milli handanna. „Ég tel rétt að grípa til aðgerða vegna tekjulágra. Við erum að vinna að tillögugerð um stuðningsaðgerðir fyrir þann hóp sem verður fyrir mestum neikvæðum áhrifum af aukinni verðbólgu," segir Bjarni.

Að öðru leyti telur Bjarni töluvert mikinn þrótt vera í hagkerfinu og að kaupmáttur flestra hafi aukist. „Af þeirri ástæðu tel ég ekki tilefni fyrir okkur til að fara í almennar aðgerðir á þessu stigi. Samhliða þessu erum við með sérstakan starfshóp að störfum vegna húsnæðismálanna. Það er samstarf sem við höfum átt við vinnumarkaðinn um aðgerðir til að auka framboð og ná þannig nýju jafnvægi á húsnæðismarkaði."

Mikið hefur verið rætt um komandi kjarasamninga og áhrif sem þeir kunni að hafa á þróun verðbólgunnar. Bjarni er bjartsýnn á að í ljósi verðbólgunnar muni mjúk lending nást í kjarasamningum, enda sé það besta leiðin til að verja kaupmáttinn fram á við. „Hjá mér er glasið yfirleitt hálf fullt. Ég sé ákveðin hættumerki en er sannfærður um að við getum náð samstöðu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .