Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun hafa forgöngu að þvi að setja á fót samstarfsvettvang atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis sem mun leggja til leiðir til að sporna við kennitöluflakki.

Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ákvörðunin er tekin í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun jafnframt leggja fram frumvarp til breytinga á löggjöf sem ætlað er að tryggja tímanleg skil ársreikninga. Stjórnvöld telja að skortur á tölfræði um starfsemi fyrirtækja hafi hamlað eðlilegri yfirsýn.

Um nokkurt skeið hefur farið fram skoðun á hlutafélagalöggjöfinni og ársreikningalöggjöfinni með það að markmiði að takmarka kennitöluflakk í atvinnurekstri og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitt þá vinnu.

Ekki liggur fyrir lagaleg skilgreining á „kennitöluflakki“  en mikilvægt er að fyrirhugaðar aðgerðir beinist að því uppræta það sem sannarlega er kennitöluflakk en virki ekki hamlandi fyrir þá sem að standa heiðarlega og rétt að verki.

Með kennitöluflakki er oftast átt við ákveðna misnotkun eigenda í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri og það félag sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum.

Tjónið felst gjarnan í því að félög eru keyrð í gjaldþrot með miklum skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega.