Sóttvarnalæknir boðar hertar aðgerðir innanlands að nýju í kjölfar fjölgunar smita innanlands og sendir heilbrigðisráðherra minnisblað þessa efnis. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna rétt í þessu.

Á fundinum voru Víðir Reynisson frá ríkislögreglustjóra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Í máli Þórólfs kom fram að hann kysi að tala ekki um innihald aðgerðanna fyrr en þær væru kunngjörðar en ljóst væri að leitað yrði í fyrri smiðju. Ekki væri um nýja tegund aðgerða að ræða.

Breytt fyrirkomulag á landamærunum tekur gildi 26. júlí og sagði Þórólfur að ekki stæði til að breyta boðuðum aðgerðum nú. Það gæti þó þurft að endurskoða það seinna meir.

„Forsendurnar eru þær að við erum að sjá alvarleg veikindi, innlagnir og fleiri eru að komast á alvarlegra stig. Við vitum ekki hvað gerist þegar fólk með undirliggjandi vandamál fær smit. Erum að fá upplýsingar erlendis frá um aukningar í spítalainnlagnir. Ég tel skynsamlegra að grípa hart inn í frekar en að bíða eftir faraldri innlagna og þá er of seint í rassinn gripið,“ segir Þórólfur.