Fjármálaráðherra segir ljóst að ýmis fyrirtæki muni finna fyrir hertum sóttvarnaaðgerðum. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar segja jákvætt að framlengja aðgerðir líkt og ráðherra boðaði en meira þurfi til. Verði engir erlendir ferðamenn í sumar blasi fjöldagjaldþrot við greininni nema ríkisstjórnin komi með enn víðtækari aðgerðir.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mjög miður að grípa þurfi til hertra aðgerða. Það væru vonbrigði fyrir alla en stefnan með aðgerðunum væri að verja líf og heilsu fólks og lágmarka efnahagslegan skaða. Þetta sagði hann á fundi í Hörpu í gær, þar sem hertar sóttvarnaaðgerðir voru kynntar.

„Það er alveg ljóst að ýmsir rekstraraðilar munu finna fyrir því sem nú tekur við," sagði Bjarni. Því næst fór hann yfir þau úrræði sem í boði eru.

Sagði Bjarni lög um lokunarstyrki gilda út júnímánuð en verið væri að vinna að framlengingu þess úrræðis út árið. Sömuleiðis væri enn verið að greiða út viðspyrnustyrki. Samkvæmt lögum ætti það úrræði að gilda út maímánuð en framlenging væri í undirbúningi.

Varðandi stuðningslánin þá hafa sumir haft áhyggjur af endurgreiðsluferlinu en Bjarni sló á þær áhyggjuraddir með því að taka af allan vafa um að gjaldfrestir yrðu framlengdir. Það sama gerði hann með frestun skattgreðslna þegar hann sagði að þeir sem væru með gjalddaga í sumar myndu fá rými til að dreifa þeim yfir tveggja ára tímabil.

Fjármálaráðherra hnykkti á því að hlutabótaleiðin væri enn í gildi og líkt og með önnur úrræði þá væri til skoðunar að framlengja hana. Bjarni sagði að enn væri hægt að sækja um greiðslu launa í sóttkví og unnið væri að framlengingu á heimild til úttektar séreignasparnaðar.

Vill stuðning við veitingastaði

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir hertar sóttvarnaraðgerðir hafa mjög erfið og flókin áhrif á veitingastaði, hótel og aðra sem ætluðu sér að þjónusta innlenda ferðamenn um páskana.

„Það var mjög jákvætt að heyra frá fjármálaráðherra að það standi til að koma til móts við þá sem er gert að loka. En að því sögðu minni ég á að veitingastaðir hafa frá upphafi faraldursins verið undir allskonar takmörkunum vegna sóttvarna. Veitingastaðir hafa þrátt fyrir það aldrei fengið lokunarstyrki og nú tel ég vera kominn tími til þess að þeim séu veittir hlutfallslegir lokunarstyrkir, vegna áhrifa sóttvarna á þeirra rekstur, þrátt fyrir að þeim sé ekki gert að skella alveg í lás. Ég tel eðlilegt að ríkisvaldið taki loks tillit til þess hver áhrifin eru á þessa starfsemi. Það verður einfaldlega að taka veitingastaði með inn í jöfnuna og hugsa með hvaða hætti sé hægt að bæta þeim upp þetta tekjutap sem verður beinlínis vegna sóttvarnarskilyrða."

Jóhannes Þór segir að sú staða sem nú sé komin upp sýni einfaldlega að þó að það sé sífellt verið að hrósa þjóðinni fyrir að hafa staðið sig vel í gegnum faraldurinn, þá séum við því miður ekki að standa okkur nægilega vel.

„Við þurfum einfaldlega að fara eftir öllum þeim reglum sem eru í gildi meðan þær eru í gildi. Það má hafa ýmsar skoðanir á hvort þær eigi að vera eins og þær eru, en fólk verður að virða sóttkví, hætta að sækja fólk út á flugvöll sem á að fara beint í sóttkví, bera grímur, virða fjarlægðartakmörk, ekki sækja veislur eða fara í búðina áður en niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir og svo mætti áfram lengi telja. Það eru þessar einstaklingsbundnu sóttvarnir sem koma í veg fyrir að smit dreifist. Þetta er helsti lærdómurinn núna og var það einnig síðasta haust."

Hann bendir á að það sé mjög auðvelt fyrir fólk að tala um að loka þurfi landamærunum en sama hversu harðar aðgerðir á landamærum séu muni alltaf einhver smit sleppa í gegnum landamærin. Reynsla Ný-Sjálendinga sé gott dæmi um það. "Þess vegna skiptir máli að við, sem búum hér á landi og störfum, pössum okkur vegna þess að það erum við sem dreifum smitinu út um allt en ekki þessi eini sem sleppur í gegnum landamærin smitaður."

Mega ekki við öðru mögru sumri

Jóhannes Þór segir jákvætt að hægt verði að klára bólusetningar á heilbrigðisstarfsfólki og 70 ára og eldri á næstu tveimur vikum, líkt og kom fram í máli heilbrigðisráðherra á fundi ríkisstjórnarinnar, en betur megi ef duga skal.

„Þeim mun hraðar sem okkur tekst að ljúka bólusetningum, þeim mun betur styður það við opnun samfélagsins, og þar með efnahagslífsins, á nýjan leik. Það liggur fyrir að það verður tekið upp nýtt litakóðakerfi á landamærum frá 1. maí og þeim mun meira sem okkur tekst að bólusetja í apríl og maí, þeim mun líklegra er að ferðamenn geti komið til landsins í einhverjum mæli í júní."

Hann segir það liggja ljóst fyrir að ferðaþjónustufyrirtækin geti tæplega lifað af annað sumar í líkingu við það síðasta.

„Staðan er einfaldlega sú að síðastliðið sumar gátu fyrirtæki í ferðaþjónustu þraukað vegna þess að þau fengu mjög sterka aðstoð frá ríkinu, nutu skilnings hjá fjármálastofnunum, fengu aðgang að lánsfé eða greiðslufrestum og hafa svo haft aðgang að styrkjum í vetur. Á sama tíma hafa fyrirtækin brennt upp nær allt eigið fé sem þau áttu."

Ef komandi sumar bregðist með sama hætti í erlendri ferðamennsku og það síðasta, þá sé staðan grafalvarleg.

„Þá verður úr tveimur slæmum kostum að velja. Annað hvort kemur ríkið inn með mun stærri aðgerðir, til þess að halda algjörlega fjárvana fyrirtækjum á floti fram á sumarið 2022. Þetta er auðvitað ekki fýsileg sýn fyrir stjórnvöld að teknu tilliti til hallareksturs ríkisins. Hinn kosturinn er sá að greinin standi frammi fyrir fjöldagjaldþrotum og fyrirtækin fari umvörpum á hausinn, með tilheyrandi atvinnuleysi. Þá gætum við gleymt því að leysa atvinnuleysisvandamál þjóðarinnar á næstu 12 til 18 mánuðum. Þar með væri nýju stigi hamfara náð í efnahagslífinu," segir Jóhannes Þór.

Það sé því ekki að ástæðulausu sem SAF hafi talað fyrir mikilvægi þess að ferðamenn sem þegar hafi verið bólusettir eða séu með mótefnavottorð geti komið hingað til lands án þess að fara í sóttkví frá 1. maí.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna, heldur efnahagslegt viðurværi þjóðarinnar í heild," segir Jóhannes Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér