Janet Yellen – fjármálaráðherraefni Joe Biden sem tekur við forsetaembætti Bandaríkjanna á morgun – hvatti þingheim til að ráðast í umfangsmiklar örvunaraðgerðir vegna heimsfaraldursins í dag. Hún hét því ennfremur að setja þarfir vinnandi fólks í forgang, verði hún staðfest í embættið.

Þingmenn repúblíkanaflokksins sögðu ekki réttan tíma til að leggja fram umfangsmiklar umbætur og vöruðu hana við, en hún lét ekki segjast og ítrekaði hvatningu sína til þess að billjónum (e. trillions, eða þúsundir milljarða) dala yrði varið til frekari aðgerða, án tillits til skuldasöfnunar ríkissjóðs. Ríkið eyddi á nýliðnu ári upphæð af sömu stærðargráðu í þær aðgerðir sem þá var ráðist í.

Yellen var skipuð í embætti seðlabankastjóra Bandaríkjanna af Obama árið 2014, og gegndi embættinu til 2018, þegar skipunartími hennar rann út og Trump skipaði Jerome Powell, arftaka hennar.

Biden hefur nú tilnefnt hana sem fjármálaráðherra, og hluti af staðfestingaferli hennar í embætti felur í sér að sitja fyrir svörum þingsins.

Umfjöllun BBC.

Umfjöllun Wall Street Journal.