*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 8. janúar 2020 11:38

Boðar enn flugtak Wow á næstu vikum

Eigandi og titlaður stjórnarformaður Wow vörumerkisins boðar að flugfélagið fari í loftið innan nokkurra vikna.

Ritstjórn
MIchele Roosevelt Edwards, áður Ballarin, með flugvélamótelið góða af vél Wow air á fréttamannafundi um að flugfélagið myndi hefja sig á loft innan nokkurra vikna snemma í haust.
vb.is

Í yfirlýsingu á LinkedIn síðu sinni segir Michele Roosevelt Edwards, sem þar titlar sig fyrst og fremst sem stjórnarformann Wow air, að flugfélagið hefji sig á ný á loft innan nokkurra vikna.

Setti Edwards, sem áður bar nafn fyrrum eiginmanns síns Ballarin, yfirlýsinguna inn fyrir 9 klukkustundum síðan, en um leið setti hún vær ljósmyndir af vélum Wow, annars vegar á lofti undir yfirskriftinni: Á leið á himininn yfir þinni borg, fljótt, sem og mynd af módeli af vél Wow, sem þó virðist bera einhvers konar vatnsmerki, undir yfirskriftinni: Tilbúin til að taka á loft.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um í síðasta tölublaði hefur Edwards, áður Ballarin, verið í ýmis konar verkefnum, sem mörg hver komust aldrei af teikniborðinu.

Hún komst fyrst í fréttirnar hér á landi þegar hún bauð í, og að lokum keypti, valdar eignir út úr þrotabúi Wow, þar á meðal nafn og vörumerki félagsins, auk nýrra einkennisbúninga sem ekki höfðu verið sendir til starfsmanna.

Edwards er jafnframt titluð stjórnarformaður félagsins USAerospace Associates, á Dulles flugvelli í Virginíuríki Bandaríkjanna, og hefur hún verið það frá því í júní 2009, en engar frekari upplýsingar eru gefnar um menntun eða starfsreynslu.

„Wow air fer í loftið á ný innan fárra vikna. Sýn okkar er einföld: Við viljum gera það gaman á ný að fljúga. Við hlökkum til að kynna okkar helstu þætti í átt að því markmiði og að koma þeim í gagnið í okkar fyrsta flugi,“ segir Edwards í yfirlýsingu í litum Wow air.

„Wow air mun tengja lönd og heimsálfur í einu metnaðarfullu og samtengdu þjónustukerfi. Við bjóðum þig velkomin í „Wow heiminn“ og lofum þér öryggi, þægindum og sanngjörnu verði, hvert svo sem þú stefnir meðal áfangastaða okkar.“