*

laugardagur, 16. janúar 2021
Innlent 22. desember 2020 14:32

Boðar fólk sjálfvirkt í bólusetningu

Tölvukerfi sem heldur utan um Covid-19 bólusetningar á Íslandi mun geta boðað forgangshópa sjálfvirkt.

Ritstjórn
Með sjálfvirku utanumhaldi um bólusetningar getur nýtt kerfi boðað fólk sjálfvirkt á mismunandi heilsugæslustöðvar að sögn Örnu Harðardóttur, að neðan, viðskiptastjóra heilbrigðislausna Origo.
epa

Undanfarnar vikur hefur Origo unnið að tölvukerfi sem sér um allt utanumhald fyrir Covid-19 bólusetningar á Íslandi, en það á að halda utan um forgangshópa og boða fólk sjálfvirkt í bólusetningu í gegnum SMS.

Kerfið byggir á hugmynd sem þróuð var af fyrirtækinu fyrir Covid-19 sýnatökur á landamærunum og er notað í dag við nær allar Covid-19 sýnatökur á Íslandi. Þróun þess var gerð í nánu samstarfi við Landlæknaembættið, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og aðrar heilbrigðisstofnanir.

Hægt verður að fá vottorð fyrir bólusetningu

Arna Harðardóttir, viðskiptastjóri heilbrigðislausna Origo segir að tekist hafi að þróa kerfi sem myndað hafi öflugan grunn að lausnum við bólusetningar.

„Huga þurfti að mörgum þáttum við þróun kerfisins en það heldur m.a. utan um einstaklinga sem eru í forgangshópi. Einnig þurfti að þróa kerfið á þann hátt að mögulegt væri að boða einstaklinga með sjálfvirkum hætti í bólusetningar jafnóðum og bóluefni berst til landsins,“ segir Arna.

„Það verður gert á þann hátt að einstaklingur fær sent strikamerki með skilaboðum í Heilsuveru og SMS um boðun í bólusetningu. Þá er mögulegt að boða einstaklinga á mismunandi bólusetningastöðvar út frá því á hvaða heilsugæslu þeir eru skráðir.

Einnig mun kerfið boða einstaklinga í seinni bólusetningu á sambærilegan hátt í gegnum Heilsuveru. Þannig heldur Heilsuvera áfram að vera miðlægur samskiptagrunnur fyrir heilbrigðisþjónustu einstaklinga.“

Arna segir að kerfið muni sjá um að skrá allar bólusetningar í bólusetningargrunn sóttvarnarlæknis svo hægt verði að halda miðlægt utan um alla þá sem fá bólusetningu. Einstaklingar geta síðan sótt í Heilsuveru vottorð sem staðfestir að þeir hafi fengið bólusetningu.

„Nú þegar hefur verið hafist handa við að skrá inn í kerfið þá forgangshópa sem hafa verið skilgreindir af sóttvarnarlækni og heilbrigðisráðherra en sú vinna hófst þann 15. desember síðastliðin.“

Ísland í einstakri stöðu

Heilbrigðislausnir Origo vinna einnig í samstarfi við Landlæknisembættið að því að útbúa lista yfir alla þá einstaklinga sem eru í áhættuhópi fyrir Covid-19 út frá þeim sjúkdómsgreiningum sem skráðar eru í sjúkraskrárkerfi Sögu.

Ísland er í einstakri stöðu að sögn Örnu vegna þeirra rafrænu innviða sem þróaðir hafa verið fyrir heilbrigðiskerfið á undanförnum árum, samanber sjúkraskrárkerfið Sögu, Heilsuveru og heilbrigðisnetið Heklu sem Origo heldur utan um og þróar.

„Þessir innviðir munu nú gera okkur kleift að bólusetja gegn Covid-19 með markvissum og skipulögðum hætti,“ segir Arna.

Síðan Covid-19 faraldurinn skall á hefur Origo unnið náið með Landlæknisembættinu að sýnatökum bæði á landamærum Íslands og öðrum heilbrigðisstofnunum.

„Landamærakerfið sýndi styrkleika sinn þegar það var innleitt á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins við almennar sýnatökur. Áður en kerfið var innleitt var Heilsugæslan að taka um 200-400 Covid-19 sýni á dag en með innleiðingu landamærakerfisins náðist að taka allt að 4000 sýni á dag,“ segir Arna ennfremur.