Ríkisstjórnin hyggst koma á komugjöldum hér á landi til að til standa straum af auknum kostnaði vegna ferðamannastraumsins við viðhald og uppbyggingu innviða. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, á flokksþingi Framsóknarflokksins í morgun.

Þá er ætlunin að tekjur af gistináttagjaldi færist alfarið yfir til sveitarfélaga að sögn Sigurðar Inga.

Sigurður Ingi boðaði stórsókn í uppbyggingu vegakerfisins í ræðu sinni og sagði að til skoðunar væri að bæta við fjármunum í vegaframkvæmdir á þessu ári umfram það sem samþykkt var í fjárlögum þessa árs.

Sigurður Ingi sagði einnig að frá og með mánudeginum yrði sama fargjald í Herjólf hvort sem siglt væri frá Þorlákshöfn eða Landeyjahöfn.