*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 15. ágúst 2021 09:08

Böðin vinsælasta gjöfin

Baðlón eru vinsælustu áfangastaðirnir fyrir nýju ferðagjöfina á sex af níu landsvæðum.

Sigurður Gunnarsson
Sky Lagoon, baðlónið á Kársnesi, er vinsælasti staðurinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýju ferðagjöfina.
Aðsend mynd

Alls nýttu landsmenn fyrri ferðagjöfina fyrir um milljarð króna en 527 milljónir voru ónotaðar í lok gildistímans. Nú þegar helmingur er liðinn af nýju ferðagjöfinni, sem tók gildi 1. júní síðastliðinn, hafa Íslendingar keypt vörur og þjónustu fyrir 315 milljónir gegn ferðagjöfinni í sumar. Inneignin rennur út í lok september. Um 65 þúsund ferðagjafir hafa verið notaðar frá byrjun júní, þar af 54 þúsund fullnýttar. 

Ferðagjöfin, fimm þúsund króna inneign til allra Íslendinga yfir 18 ára aldri, var hluti af aðgerðum stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki vegna áhrifa Covidfaraldursins. Fyrri ferðagjöfin átti upphaflega að gilda frá júní og út desember á síðasta ári en var síðar framlengd til 31. maí síðastliðins. Yfir 800 fyrirtæki voru skráð til þátttöku í ferðagjöfinni í vor. 

Þjónustustöðvar N1 eru efstar á lista yfir þá staði þar sem ferðagjöfin hefur verið mest nýtt. Alls hafa 23 milljónir verið nýttar á bensínstöðvum N1 í sumar, samanborið við 50 milljónir í fyrri ferðagjöfinni. Olís er í þriðja sæti með 15 milljónir og því hafa minnst 38 milljónir í formi ferðagjafarinnar verið nýttar hjá þessum tveimur olíufyrirtækjum í sumar.

N1 prýddi þó ekki efsta sætið fyrir fyrri ferðagjöfina, en 53 milljónir fóru í sýndarflug hjá Flyover Iceland í fyrra. Svo virðist sem færri Íslendingar muni eyða ferðagjöfinni sinni í flugsýningar í sumar, en Flyover Iceland er nú í sjöunda sæti listans með tíu milljónir. 

Íslendingar sækja í baðlónin 

Baðlón eru sífellt að verða vinsælli meðal landsmanna og sem dæmi um það eru þrjú þeirra meðal efstu átta fyrirtækjanna á listanum. Baðlón eru í efstu sætunum á sex af níu landsvæðum í sundurliðuninni í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Alls hefur 54 milljón runnið til fyrirtækja sem starfrækja baðlón eða náttúrulaugar í sumar. Til samanburðar var upphæðin 62 milljónir (inniheldur ekki Sky Lagoon eða Bjórboðin) fyrir fyrri ferðagjöfina yfir heildargildistímann. 

Sky Lagoon, baðlónið á Kársnesi sem var opnað í lok apríl síðastliðins, vermir annað sætið með 19 milljónir og er vinsælasti staðurinn fyrir ferðagjöfina á höfuðborgarsvæðinu. Jarðböðin við Mývatn og Vök böðin, rétt hjá Egilsstöðum, hafa hvort um sig tekið við 10 milljónum í formi ferðagjafarinnar. Bláa lónið var eina baðlónið sem komst inn á topp tíu listann í fyrra en fyrirtækið tók við 26 milljónum á síðasta ári, samanborið við 3 milljónir það sem af er sumrinum.  

Kjúklingurinn leiðir skyndibitamarkaðinn

KFC leiðir aftur listann hjá skyndibitakeðjum, en kjúklingabitakeðjan hefur tekið við ferðagjöfum að andvirði 43 milljóna, þar af 11 milljónum í sumar. Domino‘s fylgir þar á eftir með rúmar 8 milljónir í ár en alls hefur pítsakeðjan fengið nærri 33 milljónir í gegnum ferðagjafirnar tvær.

Samkeppnin á samlokumarkaðnum er mikil í sumar en Hlöllabátar leiða þann markað með 3,9 milljónum samanborið við 3,8 milljónir hjá Subway. Nærri 41 milljón af ferðagjafarinneign hefur runnið til samlokukeðjanna tveggja ef teknar eru með báðar ferðagjafir. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: N1 KFC Sky Lagoon Ferðagjöf