Ríflega 80 samningar eru nú þegar lausir. Þann 30. apríl losna 59 samningar í viðbót og í sumar 20. Sú sátt sem skapaðist á almenna vinnumarkaðnum fyrir ári var rofin með samningum við kennara og lækna. Nú sitja menn við samningaborðið á ólíkum forsendum. Launþegar tala um leiðréttingu og réttlæti en vinnuveitendur um efnahagslegan stöðugleika. Gjáin virðist óbrúanlega og ríkið ber að stórum hluta ábyrgð á því og ættu því að koma að samningaborðinu með einhverjum hætti.

Útlit er fyrir að þúsundir vinnandi fólks fari í verkfall í næsta mánuði. Um 10 þúsund félagsmenn í Starfsgreinasambandi Íslands hafa boðað verkfall 10. apríl og þá hafa fjölmörg aðildarfélög innan BHM boðað verkfallsaðgerðir. Þær aðgerðir taka til um 4 þúsund félagsmanna og munu hefjast strax eftir páska eða 7. apríl. Þessu til viðbótar hafa rafiðnarmenn, sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, samþykkt verkfall og hefjast aðgerðir á fimmtudaginn í næstu viku.

Ef 14 þúsund manns fara í verkfall jafngildir það um 8% af starfandi fólki á vinnumarkaðnum. Er þá miðað við að um síðustu áramót voru tæplega 180 þúsund manns starfandi í landinu.

Hjá BHM eru fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir töluvert flóknar því ekki nema hluti af þessum 4 þúsund hefur boðað til allsherjarverkfalls en það eru geislafræðingar, sem starfa á Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, og dýralæknar. Aðrar aðgerðir beinast að ákveðnum vinnustöðum og munu starfsmenn leggja niður vinnu hluta úr degi eða í nokkra daga í senn.

Verkfall Starfsgreinasambandsins mun helst bitna á fiskvinnslu, kjötvinnslu í sláturhúsum, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi.

Um 80 samningar lausir og 80 í viðbot að losna

Staðan í dag er þannig að þann 28. febrúar urðu 82 kjarasamningar lausir. Þann 30. apríl losna 59 samningar til viðbótar og sumar losna 20 samningar í viðbót. Þann 30. apríl losna meðal annars samningar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en þar stefnir í harðar deilur og miðað við að ríkið er að bjóða 3,5% í þeim viðræðum sem það á í dag og hjúkrunarfræðingar hafa gefið út að þeir miði sína kröfugerð, sem ekki hefur verið gerð opinber, við þær launahækkanir sem læknar fengu má allt eins búast við verkfallsaðgerðum. Slíkar aðgerðir myndu bitna á sjúkrahúsum landsins, en einnig hjúkrunarheimilum og fleiri stöðum. Til að bæta hugsanlega gráu ofan á svart fyrir heilbrigðiskerfið í landinu þá verða samningar Sjúkraliðafélags Íslands einnig lausir 30. apríl.

Fyrirhugaðar aðgerðir aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og BHM eru aðeins toppurinn á ísjakanum, því ýmis önnur sambönd eru að meta stöðuna. Almennt má segja að krafan sé um tugprósenta launahækkun á meðan bæði ríkið og Samtök atvinnulífsins hafa boðið 3 til 4% hækkun. Gjáin virðist óbrúanleg.

Fjallað er ítarlega um yfirvofandi verkföll í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .