*

laugardagur, 4. desember 2021
Fólk 14. október 2021 18:11

Böðvar í fram­kvæmda­stjórn Eim­skips

Böðvar Örn Kristinsson tekur tímabundið við af Guðmundi Nikulássyni sem framkvæmdastjóri innanlandsflutninga Eimskips.

Ritstjórn
Böðvar Örn Kristinsson
Aðsend mynd

Böðvar Örn Kristinsson, sem hefur starfað síðustu ár sem forstöðumaður innanlandsflutninga Eimskips, hefur tekið tímabundið við sem framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá flutningafélaginu. Hann tekur við af Guðmundi Nikulássyni sem stígur nú til hliðar vegna heilsufarsástæðna en Guðmundur hefur gegnt stöðunni frá árinu 2009. Þetta kemur fram í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar.  

Samhliða þessu verður hafnarstarfsemi á Íslandi, þar með talið rekstur Sundahafnar sem heyrt hefur undir innanlandssvið, nú fært undir rekstrarsvið sem Hilmar Pétur Valgarðsson fer fyrir. Innanlandsviði munu nú tilheyra innanlandsflutningar og vöruhúsastarfsemi á Íslandi.

Böðvar Örn Kristinsson hefur starfað hjá Eimskip í sautján ár í verkefnum sem tengjast innanlandsflutningum, meðal annars í sölumálum og sem rekstrarstjóri á innanlandssviði. Síðustu ár hefur hann svo starfað sem forstöðumaður innanlandsflutninga.

Böðvar er með B.S. í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og M.Sc. í flutningahagfræði og flutningaþjónustu frá Erasmus University í Rotterdam. Hann er giftur Þórdísi Ómarsdóttur og eiga þau þrjú börn.