*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Erlent 10. nóvember 2020 10:19

Max vélarnar gætu tekið á loft í nóvember

Svo gæti farið að Boeing 737 Max flugvélarnar verði leyfðar á ný þann 18. nóvember næstkomandi.

Alexander Giess
Boeing 737 Max vélarnar hafa verið kyrrsettar síðan í mars 2019.
epa

Bandarísk flugmálayfirvöld (e. US Federal Aviation Administration) eru að leggja lokahönd á þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað á Boeing 737 Max vélunum og gerir ráð fyrir að klára ferlið „á næstu dögum“ sagði stjórnandi eftirlitsins við Reuters.

Þrír heimildarmenn Reuters sögðu að yfirvöld myndu veita vélunum flugleyfi 18. nóvember næstkomandi. Enn fremur segja heimildarmenn Reuters að flugmálayfirvöld víðsvegar um heiminn séu að komast nær því að hleypa téðum vélum aftur á loft, jafnvel á sama tíma og yfirvöld í Bandaríkjunum. Boeing neitaði að tjá sig um málið við fréttaveituna. 

Eftir að flugmálayfirvöld hafa veitt blessun sína yfir Boeing 737 Max vélum þurfa flugfélög að þjálfa flugmennina sína og hlúa að hugbúnaðaruppfærslum, eitthvað sem tekur 30 daga hið minnsta. Soutwest Airlines, sem er stærsti einstaki notandi téðra véla, segir að það taki nokkra mánuði að standast skilyrði yfirvalda. Félagið gerir ekki ráð fyrir að nota Max vélarnar á ný fyrr en á öðrum ársfjórðungi 2021.

Fyrrnefndar vélar voru kyrrsettar í mars 2019 í kjölfar tveggja banvænna flugslysa á fimm mánaða tímabili. Alls létust 346 manns í flugslysunum.

Stikkorð: Boeing kyrrsetning Max 737 vélar