Boeing 747-8, ein nýjasta framleiðsla bandaríska flugvélaframleiðandans, var í gær reynsluflogið í fyrsta skipi og tókst flugið vel að sögn talsmanna Boeing.

747-8 er nýjasta útgáfa í 747 línunni, betur þekkt sem Jumbo vél. Vélin á að vera léttari og umhverfisvænni en núverandi 747 vélar auk þess sem notast er við margt úr hönnun nýjustu vélar Boeing, 787 Dreamliner. Þess má geta að Dreamliner vélin flaug í fyrsta skipti um miðja desember s.l.

En 747-8 vélin er lítillega á eftir áætlun þó svo að töfin hafi ekki verið jafn löng í samanburði við 787 Dreamliner sem er rúmum 2 árum á eftir áætlun. Tilraunarflugi 747-8 hefur verið frestað tvisvar en vélin er þó innan við ári frá fyrstu áætlunum.

Um er að ræða tvær tegundir af 747-8 vélinni. Annars vegar 747-8 Freighter, sem er fraktútgáfan og hins vegar 747-8 Intercontinental sem er farþegaútgáfan. Rétt er að taka fram að þó svo að 747 línan hafi verið í framleiðslu í tæp 40 ár er hér um að ræða nýja hönnum og nýja útlistun á vélinni. Þess vegna er fer 747-8 vélin í gegnum allt ferli eins og um splunkunýja framleiðslu sé að ræða. Bæði skrokkurinn sjálfur er ný hönnun auk þess sem hreyflar, vænghaf, rafbúnaður, lendingabúnaður og flugstjórnarkerfið er allt nýtt.

Gert er ráð fyrir því að afhenda vélina til þjónustu í lok þessa árs. Líkt og með 787 Dreamliner taka nú við reynsluflug bæði dag og nótt næstu vikur og mánuði og ef allt gengur að óskum ætti núverandi tímaáætlun að standast.

Það er fraktfélagið Cargolux frá Luxemborg, sem er Íslendingum vel kunnugt, sem fær fyrstu vélina afhenta en félagið á 10 vélar pantaðar. Til að byrja með verður aðeins afhent fraktútgáfa af vélinni, eða um 15 vélar en þá er gert ráð fyrir nokkrum einkavélum sem innréttaðar verða sem slíkar og loks véla til farþegaflutninga. Um 110 vélar hafa verið pantaðar, þar af 76 af fraktútgáfunni. Listaverð Boeing fyrir hverja vél er um 300 milljónir dala og því ljóst að ef vel gengur ætti sala og afhendingar á vélinni að auka tekjuflæði Beoing verulega á næstu árum.

Boeing framleiddi sína fyrstu 747 vél árið 1969. Síðan þá hefur 747 línan orðið þekktasta lína Boeing þrátt fyrir að 737 línan sé sú mest selda. Nú eru í umferð 747-200, sem hætt er að framleiða og einnig 747-400 sem er litlu stærri en 200 týpan. 747-8 vélin er aðeins stærri en hin þekkta 747-400, en mestu munar í lengdinni þar sem 747-8 er 18 fetum lengri. Þá getur fraktútgáfan af vélinni borið 16% meira en 747-400 og farþegaútgáfan getur flutt rúmlega 50 farþegum meira.

Að sögn Boeing á hönnun 747-8 vélarinnar að gera vélina sparneytnari og umhverfisvænni en hin tveggja hæða A380 frá Airbus, helsta samkeppnisaðilanum. Reynsluflug vélarinnar næstu mánuði á þó eftir að segja til um það.