*

föstudagur, 25. september 2020
Erlent 30. apríl 2020 08:17

Boeing ætlar að skera niður um 10%

Bandaríski flugvélaframleiðandinn hyggst draga enn frekar úr smíði farþegaflugvéla. Töpuðu andvirði 94 milljarða króna.

Ritstjórn
Starfsmönnum Boeing verður fækkað um 10% vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á eftirsurn eftir farþegaflugvélum.
european pressphoto agency

Boeing flugvélaframleiðandinn í Bandaríkjunum hyggst skera niður um 10% starfsmanna félagsins og draga úr smíði á farþegaflugvélum vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Vegna ýmis konar samgöngu-og samkomutakmarkana víða um heim er talið að flug í heiminum muni helmingast á árinu, og mikil óvissa er um framhaldið sem gæti leitt til þess að flugfélög bæði vilji ekki og hreinlega geti tekið við nýjum vélum.

Hyggst félagið því helminga smíði sína á 787 jetliner vélunum, niður í 7 á mánuði, eftir að hafa fækkað úr 14 niður í 10 áður. Jafnframt er smíði 777 vélanna dregin saman. Þó hyggst félagið auka við smíði á Boeing 737 MAX vélunum, sem kyrrsettar hafa verið vegna mannskæðra flugslysa síðan í mars á síðasta ári, á ný, í 31 á mánuði. 

Aðalkeppinauturinn Airbus hefur einnig tilkynnt um að smíði véla þess yrði dregin saman um þriðjung. David Calhoun forstjóri Boeing segir áhrifin af kórónuveirunni bæði hafa áhrif á eftirspurn, framleiðslu og birgðastöðu félagsins.

„Eftirspurnin eftir farþegaflugvélum hefur fallið fram af bjargbrún,“ er haft eftir bréfi hans til starfsmanna í WSJ.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins tapaði félagið 641 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur 94,2 milljörðum íslenskra króna, en hagnaður þess á sama tíma fyrir ári nam 2,15 milljörðum dala, eða 316,1 milljarði íslenskra króna. Handbært fé félagsins nemur nú 15,5 milljörðum dala, og lækkaði það um 4,7 milljarða dala á ársfjórðungnum.

Stikkorð: Boeing uppsagnir David Calhoun