Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing gerir nú ráð fyrir því að fraktflug á þessu ári verði á svipuðum slóðum og það var árið 2007, eftir mikinn samdrátt á árunum 2008 og 2009.

Þetta kemur fram í reglulegri flugumferðaspá Boeing en tíðni fluga, hvort sem er til farþegaflugs eða í fraktflugi, gefur vísbendinu um pantanir nýrra véla. Þá þykir aukið fraktflug einnig gefa til kynna aukin viðskipti milli ríkja og vöxtu hagkerfa.

Í spá Boeing er gert ráð fyrir að fraktflug aukist um 5,9% á milli ára næstu 20 árin og verði árið 2029 þrefalt meira en það er í dag. Þá hefur fraktflug aukist um 24% á milli ára fyrstu átta mánuði þessa árs.

Boeing 747 eru algengustu vélarnar í fraktflugi en þá hefur Boeing 777 komið sterk inn. Þá eru aðrar vélar frá Boeing notaðar í fraktflugi víða um heim, t.d. notar Icelandair Cargo 757-200 vélar í sín fraktflug.

Í spá Boeing er gert ráð fyrir því að um næstu tvo áratugi muni fraktvélum fjölga verulega og árið 2029 verði um 2.970 vélar eingöngu notaðar í fraktflug. Þær eru í dag um 1.760.