Flugvélaframleiðandinn Boeing birti uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs í gær. Tap félagsins á þriðja ársfjórðungi nam 466 milljónum dollara, sem samsvarar um 66 milljörðum króna, en á sama tíma á síðasta ári nam hagnaður félagsins 1,2 milljörðum dollara. Boeing hefur skilað tapi síðustu fjóra ársfjórðunga.

Sala félagsins nam 14,1 milljarði dollara og lækkaði um 29% milli ára, en var þó lítillega betri en greiningaraðilar höfðu reiknað með, samkvæmt umfjöllun CNBC . Höggið var mest á sviði farþegaflugvéla, en sölutekjur vegna þeirra lækkuðu um 56%, úr 8,2 milljörðum dollara á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, í 3,6 milljarða.

Sjóðstreymi félagsins var neikvætt um ríflega 5 milljarða dollara. Félagið stefnir enn að því að ná jákvæðu sjóðstreymi á síðari hluta næsta árs, en að sögn Dave Calhoun, forstjóra Boeing, gæti það reynst þrautinni þyngra í ljósi óvissu af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Gengi hlutabréfa Boeing lækkaði í gær um 4,6% og var lokagengi dagsins 148,14 dollarar. Gengi bréfanna hafði þá lækkað um yfir 54% á árinu. Kórónukreppan hefur aukið mjög á erfiðleika Boeing, sem fyrir hafði mátt þola mikið högg vegna kyrrsetningar 737 Max véla félagsins. Nú er útlit fyrir að Max vélarnar geti tekið á loft á ný fyrir árslok , en óvissa vegna faraldurs kórónuveirunnar ríkir enn.

Starfsfólki fækkað

Fyrr á árinu hafði Boeing gefið út að félagið ætlaði sér að fækka starfsfólki um 10% fyrir árslok 2021 en í upphafi árs var starfsmannafjöldi Boeing um 160.000 manns. Calhoun sagði við starfsfólk félagsins í gær að niðurskurðurinn yrði enn umfangsmeiri og að stefnt yrði að því að starfsmannafjöldi verði 130.000 við árslok 2021. Um 19 þúsund einstaklingar höfðu gert starfslokasamning við félagið í júlí og í ágúst gaf félagið út að ráðist yrði í frekari fækkanir . Við það tilefni bauð félagið starfsfólki að gera starfslokasamning að eigin frumkvæði. Nú er ljóst að félagið ætlar sér að fækka starfsfólki um 11 þúsund til viðbótar við þá 19 þúsund starfsmenn sem sömdu um starfslok í júlí.

Auk þess að fækka starfsfólki hefur Boeing farið í ýmsar niðurskurðaraðgerðir til að draga úr kostnaði. Félagið hefur meðal annars dregið úr framleiðslu sinni vegna takmarkaðrar eftirspurnar. Félagið fylgist þó náið með framvindu eftirspurnar, sem gæti tekið hratt við sér þegar bóluefni verður aðgengilegt almenningi.