Þrátt fyrir að hafa ekki lokið þróun og hvað þá byrjað framleiðslu hefur bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing þegar kynnt og markaðssett nýjustu útgáfuna af Boeing 777 vélinni fyrir sínum helstu viðskiptavinum.

Arabísku flugfélögin Emirates og Qatar Airways hafa þegar fengið kynningu á vélinni og eftir því sem fram kemur á vef Reuters fréttastofunnar munu félögin vera að undirbúa tilboð í vélina. Opinberlega hafa þau bæði gefið út að mikilvægt sé að hrakfallasaga Boeing með 787 Dreamliner vélina endurtaki sig ekki með nýjustu útgáfuna af 777 vélinni.

Til nánari útskýringa má taka fram að Boeing 777 er breiðþota sem hönnuð var og framleidd áður en 787 Dreamliner vélin var sett í framleiðslu. Vélin hefur umtalsverða burði hvað varðar flugdrægni og þægindi. Hluti af hönnun hennar var síðan nýttur til að hanna og þróa 787 Dreamliner, sem er nokkuð minni vél þó hún sé með tveimur göngum (e. two aisle).

787 Dreamliner á að spara flugfélögum talsverðar fjárhæðir í eldsneytiskostnað auk þess sem hún þykir mjög umhverfisvæn. Hönnun og framleiðsla vélarinnar byggir á nýrri tækni. Hún mun nota um 20% minna eldsneyti en flugvélar dagsins í dag, býður upp á 45% meira fraktrými, en munurinn á aðbúnaði farþega mun eflaust vekja mesta athygli. Innréttingar verða töluvert frábrugðnar því sem nú tíðkast, rakastig um borð verður hærra og líkara því sem er á jörðu niðri, sæti og gangar verða breiðari, gluggar um tvöfalt stærri en nú tíðkast og allur tækni- og afþreyingarbúnaður um borð verður fyrsta flokks.

Áætlanir Boeing gera ráð fyrir að nýta hönnunina á 787 Dreamliner til að þróa Boeing 777 vélina enn frekar í sömu átt. Vinnuheiti vélarinnar er í dag 777X. Boeing áætlar að bjóða tvær útgáfur af vélinni, 400 sæta vél (777-9X) og um 350 sæta (777-8X). Vélinni er ætlað að fljúga um 9.300 sjómílur, eða tæpa 15 þúsund kílómetra.

Emirates flugfélagið er í dag stærsti notandi 777 vélarinnar en félagið á um 175 slíkar.