Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti um helgina að félagið hyggist auka framleiðslu á Beoing 737 vélunum.

Þannig hyggst félagið framleiða 38 vélar á mánuði af 737 týpunni um mitt ár 2013 en í dag eru framleiddar 31 vél á mánuði af þessari mest seldu vél Boeing.

Þetta er í þriðja sinn á þessu ári sem Boeing tilkynnir um aukna framleiðslu á 737 vélinni. Í júní sl. tilkynnti félagið að það hygðist undir lok árs 2012 framleiða og afhenta allt að 35 vélar á mánuði. Stuttu áður, eða í byrjun maí, hafði Boeing tilkynnt að 34 vélar yrðu afhentar á mánuði á miðju ári 2012.

„Aukin framleiðsla er í takt við eftirspurn eftir þessari vél,“ sagði Jim Albaugh, forstjóri farþegaflutningavélaframleiðslu Boeing í tilkynningu frá félaginu.

Boeing 737 var fyrst kynnt til sögunnar árið 1967 og þótti hentug fyrir styttri flugleiðir. Þannig notar Ryanair til að mynda eingöngu Boeing 737 vélar fyrir flugleiðir sínar innan Evrópu. Óhætt er að segja að nær öll stærstu flugfélög heims nota 737 vélina að einhverju leyti.

Vélin leysti af hólmi Boeing 707 og 727 en hún er í dag framleidd í fjórum stærðum, 737-600, 737-700, 737-800 og 737-900 sem er stærsta týpan. Þó eru fjölmargar vélar af -200, -300, -400 og -500 línunni enn í notkun.