*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Erlent 19. ágúst 2020 13:53

Boeing fækkar starfsfólki enn frekar

Flugvélaframleiðandinn fer í uppsagnir ef nægilega margir starfsmenn taka ekki boði um starfslokasamninga.

Ritstjórn
Margt hefur breyst frá fyrsta flugi 787 Dreamliner vélar Boeing þann 15. desember 2009, en nú íhugar félagið lokun annarrar tveggja samstningarverksmiðja vélanna.

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hyggur á frekari fækkun starfsmanna en áður hafði verið tilkynnt um þar sem félagið býst við að eftirspurn eftir flugvélum verði í láginni í að minnsta kosti þrjú ár vegna veirufaraldursins.

Býður félagið nú fleiri starfsmönnum en þeim 19 þúsund sem það samdi við um starfslokagreiðslur í júlí að taka sjálfviljugir við slíkum greiðslum. Hefur félagið þar með hækkað markmið sitt sem Viðskipablaðið sagði frá í apríl um að fækka starfsfólki um 10%, en þá störfuðu 160 þúsund manns hjá Boeing.

Félagið hyggst kynna hvað starfsfólkinu sem þiggur starfslokasamningana býðst á mánudaginn næsta, 24. ágúst, en af fjölda þeirra sem taka boði um starfslokagreiðslur mun svo ráðast hversu mörgum verði sagt upp til viðbótar að því er fram kemur í WSJ.

Íhuga lokun Dreamliner verksmiðju

Nú þegar hafa 6 þúsund starfsmenn hætt hjá félaginu, flestir í farþegaflutningamiðstöð félagsins við Seattle í Washington ríki. Til viðbótar kom fram í júlí að félagið íhugar að loka annarri tveggja samsetningarverksmiðja sinna fyrir 787 Dreamliner farþegaflugvélar sínar.

Félagið fór í 25 milljarða dala skuldabréfaútboð í apríl, og býst við að skuldir þess nái hámarki í 60 milljörðum dala meðan það fer í gegnum storminn, en það býst við að reksturinn verði kominn réttu megin við núllið í byrjun næsta árs.