Flugvélarisinn Boeing hagnaðist um 923 milljónir dala, jafnvirði tæpa 117 milljarða íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er næstum því tvöfalt meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar Boeing hagnaðist um 586 milljónir dala. Þetta er jafnframt betri afkoma en búist hafði verið við og skýrist af aukinni eftirspurn eftir flugvélum fyrirtækisins, sér í lagi 787 Dreamliner.

Tekjur námu 19,4 milljörðum dala og er það 30% aukning á milli ára. Þetta eru jafnframt meiri tekjur en búist var við.

Reuters-fréttastofan segir þær áætlanir sem stjórnendur Boeing hafa lagt fram um aukna framleiðslu á þotum fyrirtækisins og tekjum upp á 78 til 80 milljarða dala metnaðarfulla en geta gengið upp þar sem mikil eftirspurn sé eftir þotunum.

Hluti af hagnaði fyrirtækisins skýrist reyndar af því að stjórnendur Boeing höfðu sýnt fyrirhyggju og lagt til hliðar 775 milljónir dala til að mæta hugsanlegri sektargreiðslu í kjölfar málaferla.

Fram kemur í frétt Reuters af uppgjöri Boeing að flugvélaframleiðandinn hafi afhent 137 þotur á fyrstu þremur mánuðum ársins og er það 32% fleiri þotur en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma hafa 412 þotur verið pantaðar hjá Boeing.