Samkvæmt nýrri spá bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing má gera ráð fyrir því að fjöldi fraktflugvéla muni tvöfaldast á næstu 20 árum.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal en Boeing gerir ráð fyrir því að fjöldi fraktflugvéla fari frá því að vera um 1.760 sem nú er í 3.500 á næstu 20 árum.

Samkvæmt greiningu Boeing verður þörf á um 970 nýjum fraktvélum auk þess sem tæplega 2.000 farþegavélum verður breytti í fraktvélar á tímabilinu. Mjög algengt er að góðum farþegaflugvélum sé breytt í fraktvélar þegar þær eru komnar til ára sinna og þykja ekki hæfilegar í farþegaflug.

Boeing gerir ráð fyrir að stærstur hluti nýrra véla, eða tæplega 700 vélar, verði í stærri kantinum og hannaðar til að flytja yfir 80 tonn. Þá verði smíðaðar um 280 minni vélar til að bera á bilinu 40-80 tonn. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir minni vélum í fraktflug. Sem dæmi um vélar af stærri gerðinni er Airbus A380F, sem er fraktvél hinnar tveggja hæða breiðþotu frá Airbus en engin fraktvél hefur enn litið dagsins ljós. Annað dæmi er auðvitað Boeing 747 en nýjasta útgáfa hennar, 747-8, er lengri og stærri en 747-400. Sú vél er nú í reynsluflugi hjá Boeing og verður afhent til þjónustu snemma árs 2013 skv. áætlun Boeing.

Boeing gerir ráð fyrir því að um 1.240 farþegavélum verði breytt í fraktvélar næstu árin til að mæta þörfinni fyrir burðargetu upp á 40-80 tonn. Þar er helst horft til Boeing 757 (sem Icelandair og Icelandair Cargo nota) sem hafa sérstaklega mikla burðargetu. Jafnframt má gera ráð fyrir því að einhverjum Airbus A320 vélum og jafnvel A330 vélum verði breytt í fraktvélar með tímanum.

Eins og gefur að skilja mun það kosta eitthvað að smíða allar þessar vélar en greining Boeing gerir ráð fyrir því að það muni kosta um 250 milljarða Bandaríkjadala að tvöfalda fraktflugvélaflotann á umræddu tímabili. Samkvæmt skýrslunni gerir ráð fyrir því að fraktflugs umferð aukist um 5,6% að meðaltali á ári næstu 20 árin.