Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti fyrir helgi að afhending fyrstu 747-8 fraktvélarinnar myndi tefjast um 9 mánuði.

Þetta er í þriðja sinn sem Boeing tilkynnir um tafir á 747-8 vélinni. Þangað til á nýlega stóð til að afhenta fyrstu vélina í lok þessa árs en samkvæmt tilkynningu Boeing verður sú fyrsta afhent til notkunar síðla sumars 2011. Gengi hlutabréfa í Beoing hækkaði þó í verði fyrir helgi þar sem félagið tilkynnti á sama tíma að frestun á afhendingu vélarinnar myndi ekki hafa nein fjárhagsleg áhrif fyrir árið í ár.

Það er ekki óalgengt að flugvélaframleiðendur standi ekki við upphaflegar áætlanir á afhendingu á nýjum flugvélum. Þetta er í þriðja sinn sem Boeing frestar afhendingu á 747-8 vélinni en þá hefur Beoing ítrekað frestað afhendingu á 787 Dreamliner vélinni.

Beoing 747-8 verður næst stærsta farþega- og flutningavél heims, á eftir hinni tveggja hæða Airbus 380.

Vélinni var fyrstu reynsluflogið í febrúar á þessu ári en framleiddar hafa verið fjórar vélar sem notaðar eru í reynsluflug. Nú stendur til að bæta við fimmtu vélinni sem ætti að flýta fyrir prufuferlinu. Algengt er að flugvélaframleiðendur noti nokkrar vélar í reynsluflug og segja má að þeim sé flogið nær sleitulaust á meðan prófunarferlinu stendur. Þannig eru til að mynda sex 787 Dreamliner vélar notaðar í prófunarferli þeirrar vélar. Ein þeirra var stödd hér á landi í september til að prufu í hliðarvindi.

Síðan prófunarferli 747-8 hófst hafa ýmsir gallar komið í ljós sem tafið hafa framleiðslu, og um leið afhendingu, vélarinnar.

Boeing 747 vélar hafa verið í notkun frá árinu 1969. Boeing 747-8 er 18 fetum lengri en stærsta vél Boeing hingað til, 747-400. Byrjað var að framleiða vélina í nóvember 2005 og upphaflega var áætlað að afhenda fyrsta eintakið til notkunar í lok árs 2009. Nú þegar er búið að panta 76 fraktvélar. Sem fyrr segir stendur til að afhenda fyrstu vélina til notkunar síðla sumar 2011. Fyrstu 747-8 vélarnar sem ætlaðar eru til farþegaflutninga verða afhentar ári síðar.

Til samanburðar við 747-400 vélina tekur 747-8 16% meiri frakt en auk þess tekur hún rúmlega 50 fleiri farþega en 747-400.