Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur sagt að kyrrsetning 737 Max flugvéla fyrirtækisins muni kosta það meira en milljarð Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 121 milljarði íslenskra króna.

Er það þá kostnaður vegna framleiðslu véla félagsins, og vegna lagfærslna á sjálfstýrihugbúnaði sem kennt hefur verið um tvö mannskæð flugslys með vélunum á innan við fimm mánaða tímabili, og kostnaðar við aukna þjálfun flugmanna.

Því til viðbótar meta greinendur að kostnaðurinn geti numið allt að 3 milljörðum dala, þegar félagið hefur greitt fjölskyldum þeirra sem létust í flugslysunum, auk flugfélaganna og flugvélaeigendanna, skaðabætur.

Jákvætt sjóðstreymi þrátt fyrir allt

Kom kostnaðarmat flugvélaframleiðandans samhliða því að félagið birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Þrátt fyrir allt nam hagnaður ársfjórðungsins 2,15 milljörðum dala, eða sem nemur 261 milljarði íslenskra króna, sem er lækkun um 13,3% frá 2,48 milljarða dala hagnaði á sama tíma fyrir ári.

Lækkuðu tekjur félagsins niður í 22,92 milljarða dala, eða sem samsvarar 2.783 milljörðum íslenskra króna. Þannig sýndi uppgjörið að þrátt fyrir að félagið hefði ekki getað afhent MAX vélar sem kæmu úr framleiðslu væri sjóðsstreymi félagsins enn jákvætt vegna sölu á 787 vélum félagsins og fleiri véla, auk ýmis konar þjónustusölu og sölu hernaðarbúnaðar.

Hafði félagið gert ráð fyrir því að sala á Max vélunum yrði um 40% af tekjum þess og hagnaði, og átti að auka framleiðsluna um 5 á mánuði, í 57 á mánuði, en nú hefur félagið dregið úr henni niður í 42 á mánuði.

Höfðu fengið 5.000 pantanir

Hlaðast vélarnar nú því upp í kringum verksmiðjuna í Seattle, en fyrir höfðu þeir fengið um 5 þúsund pantanir á vélinni, auk þess að hafa afhent um 370 til flugfélaga um allan heim, þar með talið 3 til Icelandair.

Boeing tilkynnti jafnframt um að það myndi hætta í bili endurkaupaáætlun bréfa félagsins sem ýtt hefur upp hlutabréfaverði félagsins síðustu þrjú árin, sem og lagt til hliðar allar áætlanir um hagnað og sölumarkmið fyrir árið í heild.

Samkvæmt umfjöllun WSJ hafði gengi bréfa félagsins fallið um minna en 1% á eftirmarkaði í kjölfar birtingar uppgjörsins, en þegar þetta er skrifað hefur gengið hækkað um 0,94%.