Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing er sagður vera að íhuga að skera niður vinnuafl sitt um 10%, vegna þeirra aðstæðna sem komið hafa upp í hagkerfinu vegna kórónuveirufaraldursins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um koma þau áhrif ofan á kyrrsetningar, og síðar framleiðslustopp, á Boeing 737 MAX vélum félagsins síðasta rúma árið. Áætlanir um niðurskurð eru sagðar geta falið í sér allt frá því að fólk fái starfslokagreiðslur, sé sent snemma á eftirlaun og alveg niður í hreinar uppsagnir.

Félagið er með um 160 þúsund starfsmenn, en talið er að uppsagnirnar yrðu fyrst og fremst meðal starfsmanna í millilandaflugssviðum, en fyrirtækið er einnig með stór hernaðarframleiðlusvið. Í síðustu viku tilkynnti Boeing að það byði starfsmönnum tækifæri til að hætta með starfslokasamningum og býst það við að nokkur þúsund starfsmenn muni þiggja þá.

Samkvæmt heimild WSJ um málið hyggst félagið reyna að draga úr starfsmannafjölda á annan hátt en hreinum uppsögnum fyrst. Ýmsir birgjar félagsins, líkt og General Electric, hafa þegar sagt að þeir muni skera niður um 10% af starfsmönnum á þotuhreyflasviði sínu, og setja um helming viðhalds og viðgerðarstarfsmanna í launalaust frí í þrjá mánuði.

Forstjóri Boeing, David Calhoun sagði þá að tilgangurinn með tilboðinu væri að „draga úr þörfinni á öðrum vinnuaflsaðgerðum“, en hann hefur lagt áherslu á þörf félagsins til að halda í starfsmenn svo félagið sé tilbúið þegar flugvélaiðnaðurinn nær sér á ný.

Boeing hefur ekki tilkynnt um hvort það hyggist sækja um lán frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum sem eru til boða samkvæmt nýjum 2.000 milljarða aðgerðapakka Donald Trump Bandaríkjaforseta. Aðalkeppinautur Boeing, samevrópski flugvélaframleiðandinn Airbus, hefur tilkynnt um að það muni draga úr framleiðslu sinni um þriðjung.