*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 12. mars 2020 20:02

Bréf Boeing lækka og lækka

Ár er frá því 737 MAX var kyrrsett. Boeing þarf nú að laga rafmagnsvíra 737 MAX. Ferðabann Trump og kórónaveiran valda tjóni.

Ingvar Haraldsson
36 þúsund vinna í Everett verksmiðjum Boeing í Washington ríki. Þar eru fyrstu tilfelli kórónuveirunnar farin að greinast.
epa

Hlutabréfaverð í flugvélaframleiðandanum Boeing hafa tekið skarpa dýfu undanfarna daga. Gengi bréfa Boeing féll um 16% í fyrstu viðskiptum í dag í kjölfar tilkynningar Donald Trump um ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna. Hlutabréfaverð félagsins hefur þó hækkað lítillega síðan og stendur lækkun dagsins nú í 9%. Þar með hefur hlutabréfaverð Boeing fallið um þriðjung það sem af er þessari viku og um helming undanfarinn mánuði.

Síðust daga hafa Boeing bæði borist slæmar fréttir af endurkomu 737 MAX vélanna og útbreiðslu kórónuveirunnar

Ár frá kyrrsetningu 737 MAX

Á morgun er síðan Boeing 737 MAX flugvélarnar voru kyrrsettar um heim allan. Það var gert eftir að 737 MAX flugvél Ethiopian Airlines hrapaði skömmu eftir flugtak og allir um borð létu lífið. Enn er óljóst hvenær bandarísk flugmálayfirvöld, FAA, hleypa flugvélunum í loftið á ný. 

Á miðvikudaginn var greint frá því að Boeing hefði fallist á að breyta uppsetningu rafmagnsvíra vélarinnar. FAA hafði áhyggjur af þeir gætu valdið skammhlaupi við vissar aðstæður með hryllilegum afleiðingum. Boeing hafði reynt að sannfæra FAA um að líkurnar á að slíkt gerðist væru svo gott sem engar og því reynt að komast hjá því að breyta vírunum

Starfsmenn Boeing veikst af kórónuveirunni

Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft áhrif á eftirspurn eftir flugferðum og þar með nýjum flugvélum. Boeing hefur þegar gripið til aðgerða og hyggst draga úr útgjöldum, stöðva ráðningar og setja þak á yfirvinnu. Þá er félagið sagt ætla að draga á 13,8 milljarða dollara lánalínur.

Útbreiðsla kórónuveirunnar kann einnig að hafa bein áhrif á framleiðslu flugvéla hjá Boeing. Mest af henni fer fram í Washington ríki í Bandaríkjunum þar sem neyðarástandi hefur verið lýst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Everett verksmiðja Boeing í Washington ríki í Bandaríkjunum er sögð stærsta bygging í heimi en þar vinna 36 þúsund starfsmenn fyrirtækisins. Fimm starfsmenn Boeing í Everett sem framleiða breiðþotur hafa greinst með kórónuveiruna og hafa verið settir í einangrun. Þeir sem voru í samskiptum við þá voru sendir heim í sóttkví. 

Boeing, líkt og fleiri fyrirtæki, vinna nú hörðum höndum að því að reyna að takmarka fleiri smit eins og hægt er. Enda bendir Seattle Times á hið augljósa. „Það er ekki hægt að smíða flugvél að heiman.“ 

Stikkorð: Boeing 737 Max FAA