Fulltrúar bandarísku flugvélasmiðjunnar Boeing lönduðu samningi um sölu á 342 farþegaþotum á flugvélasýningunni í Dúbaí í Miðausturlöndum sem hófst í gær. Verðmæti samningsins er talið nema um 100 milljörðum dala, jafnvirði 12 þúsund milljarða íslenskra króna. Á sama tíma tók evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus við pöntunum upp á 142 nýjar flugvélar. Samningurinn er metinn á um 40 milljarða dala.

Erlendir fjölmiðlar, þar á meðal AP-fréttastofan , sem hafa fjallað um flugvélasýninguna segja sölumet hafa verið slegið á henni. Ljóst sé að fjárfestar og flugfélög í Miðausturlöndum séu að koma sterk inn enda sé stór hluti pantana frá þeim hluta heimsins.

Af flugvélunum sem pantaðar voru hjá Boeing á flugfélagið Emirates stóran hlut. Flugfélagið pantaði 150 sparneytnar Boeing 777x-vélar fyrir samtals 55,6 milljarða dala. Flugfélagið skildi engan útundan en það pantaði sömuleiðis 50 A380-þotur frá Airbus fyrir 23 milljarða dala.