Málefni Boeing 737 Max flugvélanna hefur haft í för með sér að traust bandarískra og evrópskra flugmálayfirvalda til hvorra annarra hefur farið þverrandi. Financial Times hefur eftir nafnlausum háttsettum en heimildarmanni innan ESB að málið geti haft talsverð eftirköst. Alla jafna vinni flugmálayfirvöld um heim allan saman að lausn mála.

Eftir flugslys Boeing 737 Max 8 flugvélar Ethiopian Airlines sunnudaginn 10. mars, voru bandarísk flugmálayfirvöld síðust allra til að kyrrsetja vélarnar. Kínversk stjórnvöld riðu á vaðið og kyrrsettu vélarnar fyrst stórveldanna. Það er sagt hafa verið til að senda pólitísk skilaboð um að þeir taki öryggismál mjög alvarlega. Evrópsk flugmálayfirvöld fylgdu eftir á þriðjudegi en það var ekki fyrr en á miðvikudegi sem vélarnar voru kyrrsettar í Bandaríkjunum.

„Kerfið byggði á trausti og traustið er horfið,“ hefur FT eftir heimildarmanni sínum. Þá hefur FT eftir Mary Schiavo, fyrrum rannsakenda, innan bandaríska samgönguráðuneytisins að ljóst megi vera að vart sé lengur hægt að treysta á vottanir bandarískra flugmálayfirvalda. Lagi Boeing það sem að er í 737 Max vélunum hljóti önnur flugmálayfirvöld sjálf að vilja ganga úr skugga um að í lagi sé með flugvélarnar.

Enda hafa flugmálayfirvöld í Kanada einnig gert athugasemdir við framferði bandarískra flugmálayfirvalda, og áætla að gera eigin athugun á vélunum.

Forsvarsmenn bandarískra flugmálayfirvalda eru sagðir hissa á hve yfirlýsingaglaðir erlendir starfsbræður þeirra séu. Ljóst sé að það muni auka kostnað verulega ætli ríki sjálf að sjá um öryggisprófanir á öllum vélum. Þá óttist menn að Evrópubúar muni hygla Airbus á kostnað Boeing.