Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í gær um uppsagnir 4.500 starfsmanna en öllum þeim er sagt verður upp starfa í höfuðstöðvum Boeing í Seattle.

Hér er um að ræða 7% starfsmanna Boeing í Seattle. Fáum verður sagt upp í framleiðsludeild félagins, þ.e.a.s. þeim er starfa beint við flugvélaframleiðslu heldur er aðallega um að ræða uppsagnir á millistjórnendum og öðru skrifstofufólki.

Boeing er nú næst stærsti flugvélaframleiðandi heims, á eftir Airbus og í tilkynningu frá félaginu kemur fram að harðnandi samkeppni geri það að verkum að nauðsynlegt sé að sýna aðhald í rekstri.

Eftir uppsagnirnar, sem fara fram að mestu í vor, munu um 63.500 manns starfa hjá Boeing sem er þó svipaður starfsmannafjöldi og í upphafi síðasta árs.