Forstjórar flugvélaframleiðendanna Boeing og Airbus Americas hafa óskað eftir að bandarísk stjórnvöld fresti innleiðingu á nýrri 5G þráðlausri þjónustu sem þeir segja að muni hafi „gríðarleg neikvæð áhrif á fluggeirann“. BBC greinir frá .

Um er að ræða svokallað C-Band róf sem fjarskiptafélögin AT&T og Verizon munu að óbreyttu innleiða til að styðja við 5G þjónustu þann 5. janúar næstkomandi. Tæknin er þegar notuð í nærri 40 löndum, þar á meðal í Evrópu, Japan, miðausturlöndum og Singapúr.

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) hafa lýst yfir áhyggjum af mögulegum truflunum á raftækjum flugvéla líkt og ratsjárhæðarmæla vegna 5G-væðingarinnar. Slíkt geti jafnvel valdið mögulegum truflunum á lykil öryggiskerfum í stjórnklefum.

Forstjórar stóru bandarísku flugfélaganna mættu fyrir þingnefnd á miðvikudaginn síðasta og vöruðu við því að áhrif innleiðingarinnar gætu leitt til tafa, truflana og aflýsinga á flugum.

Sjá einnig: Flugrisarnir óttast 5G-væðingu

Scott Kirby, forstjóri United Airlines, sagði að það yrði „stórslysalegt klúður af hálfu stjórnvalda“ ef ekki yrði brugðist við þessum áhyggjum. Kirby sagði jafnframt að frá og með 5. janúar, að óbreyttu, muni flugfélögin ekki geta notað ratsjárhæðarmæla á 40 stærstu flugvöllum Bandaríkjanna.

Dave Calhoun, forstjóri Boeing, og Jeffrey Knittel, forstjóri Airbus Americas, hafa nú tekið undir þessi sjónarmið í sameiginlegu erindi sem þeir sendu til Pete Buttigeg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, þar sem þeir hvetja ríkisstjórn Joe Biden til að fresta innleiðingu 5G þjónustunnar.

Calhoun og Knittel vísuðu m.a. í greiningu hagsmunasamtakanna Airlines for America (A4A) þar sem því er haldið fram að ef takmarkanir frá flugmálayfirvöldum vegna 5G þjónustunnar hefðu verði í gildi árið 2019 þá hefði það leitt til seinkana, truflana eða aflýsingar á 345 þúsund farþegaflugum og 5,4 þúsund fraktflugum.

AT&T og Verizon frestuðu innleiðingu á C-Band þjónustunni í nóvember og gripu til varúðarráðstafana til að draga líkum á truflunum. Aðilar innan fluggeirans segja þó að þessar ráðstafanir duga ekki til.

Boeing og Airbus hafa nú lagt fram tillögu sem þau telja að muni takmarka gagnaflutninga vegna farsíma (e. cellular transmissions) í kringum flugvelli og önnur mikilvæg svæði.

Hagsmunasamtök bandarískra fjarskiptafyrirtækja (CITA) gefa lítið fyrir þessar áhyggjur af 5G þjónustunni og lýstu umræðu flugfélaganna sem hræðsluáróðri. Samtökin segja að hver frestun á C-Bandinu um sex mánuði kosti bandaríska hagkerfið 25 milljarða dala ávinningi út áratuginn.