*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Erlent 8. janúar 2021 08:22

Boeing sektað um 316 milljarða

Flugvélaframleiðandinn hefur samið um sektargreiðsluna fyrir að hafa leynt upplýsingum um 737 MAX vélarnar.

Ritstjórn
Boeing 737 MAX flugvélarnar hafa verið kyrrsettar síðan 2019 í kjölfar tveggja mannskæðra slysa.
epa

Boeing hefur samið við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna um að greiða 2,5 milljarða dala, ígildi 316 milljarða króna, í sekt fyrir að hafa leynt upplýsingum um hönnun 737 MAX flugvélarinnar frá yfirvöldum. BBC segir frá.

Ráðuneytið sakaði flugvélaframleiðandann um að hafa valið „hagnað framyfir hreinskilni“ með því að leyna upplýsingum um breytingar sem gerðar voru á sjálfvirku flugstjórnarkerfi vélanna, sem taldar eru eiga sök á tveimur mannskæðum slysum fyrir tveimur árum síðan. Með því hafi félagið hamlað eftirlitshlutverki yfirvalda gagnvart vélunum.

Því hafi þjálfunarleiðbeiningar vélanna skort upplýsingar um kerfið, sem tók í ákveðnum aðstæðum stjórnina frá flugmönnum byggt á röngum upplýsingum, með þeim afleiðingum að þær steyptu sér niður á við.

Um fimmtungur sektarupphæðarinnar mun renna til aðstandenda þeirra 346 sem létust í slysunum.

Haft er eftir framkvæmdastjóra Boeing, David Calhoun, að hann „trúi því staðfastlega að þessi samningur sé það rétta í stöðunni fyrir fyrirtækið, þannig gangist það við því hvernig það hafi brugðist gildum sínum og væntingum til sín“.

Stikkorð: Boeing 737 MAX