Boeing sér fram á að flugfélög í Austur-Asíu og Eyjaálfu muni sjá 6,3% árlega aukningu í flugferðum næstu 20 árin og að þau muni eyða meira en 62 þúsund milljörðum króna í flugvélar til að mæta þessari aukningu. Varaforstjóri markaðssviðs Boeing, Randy Tinseth, bendir á að spáð sé að árlegur vöxtur flugferða á heimsvísu verði 5% fram til ársins 2026 og að þeir horfi til Austur-Asíu og Eyjaálfu sem sterkasta markaðssvæðisins.

Hann segir að á svæðinu muni verða þörf á um það bil 8350 þotum á næstu tuttugu árum, sem er næstum þrefalt meira en núverandi flugfloti á svæðinu. Tinseth segir að Kína sé nú tiltölulega smár markaður, en eftir tuttugu ár verði hann að svipaðri stærð og Bandaríkjamarkaður er í dag, en hann segir að í Kína muni verða þörf á yfir 3000 þotum á tímabilinu.