Tekjur flugvélaframleiðandans Boeing fóru í fyrsta sinn yfir 100 milljarða dollara á síðasta ári. Mikil eftirspurn eftir nýjum flugvélum liggur tekjumetinu til grundvallar. Félagið afhenti viðskiptavinum sínum 806 þotur á síðasta ári sem er sömuleiðis metfjöldi í sögu félagsins. Hlutbréf félagsins fóru á flug þegar uppgjör ársins var kynnt í dag og höfðu hækkað um 6% þegar Financial Times fjallaði um málið .

Þetta er í sjötta sinn í röð sem Boeing getur státað sig af því að vera stærsti flugvélaframleiðandi heims. Evrópski keppinauturinn Airbus afhenti 800 vélar árið 2018 og var því ekki langt á eftir í viðureign félaganna á síðasta ári. Útlit er þó fyrir að Boeing muni auka frekar á forskot sitt á þessu ári því fyrir Boeing liggja 893 pantanir á meðan Airbus sér fram á að afgreiða 747 pantanir á yfirstandandi ári.