*

sunnudagur, 20. september 2020
Erlent 17. desember 2019 08:42

Boeing stöðvar framleiðslu Max vélanna

Boeing lét verða af því að stöðva framleiðslu Max 737 vélanna eftir 9 mánaða kyrrsetningu. Hlutabréf féllu um 4%.

Ritstjórn
Um 400 Boeing 737 Max vélar, þar á meðal nokkrar sem Icelandair býður eftir að taka í notkun, hafa safnast upp við verksmiðju Boeing fyrirtækisins á síðustu 9 mánuðum. Nú hættir framleiðslan tímabundið.
epa

Kyrrsetning Boeing 737 Max vélanna frá því í mars á síðasta ári hefur nú varað í 9 mánuði, sem er mun lengur en stjórnendur Boeing fyrirtækisins bjuggust við í upphafi.

Enn sem komið er telur félagið að nóg sé að uppfæra hugbúnað vélanna til að koma í veg fyrir frekari slysahættu en kyrrsetningin kom til vegna tveggja alvarlegra flugslysa þegar sjálfvirkur búnaður tók stjórnina af flugmönnum.

Þrátt fyrir kyrrsetninguna hefur framleiðsla fyrirtækisins haldið áfram óslitið þó dregið hafi úr framleiðsluhraðanum svo nú er félagið með um 400 flugvélar af þessari gerð á lager, og er svo komið að þær eru farnar að taka yfir bílastæði starfsmanna við verksmiðju fyrirtækisins.

Á síðustu vikum hefur verið sagt frá því að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafi gefið það út að félagið ætti ekki að búast við að fá vélarnar í loftið á ný fyrir lok árs eða byrjun þess næsta, því enn sé óráðið hvernig haga eigi þjálfun flugmanna á vélarnar og hvað þurfi til að vélarnar fái að fljúga á ný.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var búist við að félagið myndi taka ákvörðun seint þann dag um hvort það hygðist stöðva framleiðsluna tímabundið. Kostnaður fyrirtækisins af kyrrsetningunni hefur þegar kostað félagið 9 milljarða dala, eða sem samsvarar 1,1 billjón króna eða nánar tiltekið 1.108 milljörðum króna.

Nú hefur komið í ljós að félagið hyggst stöðva framleiðsluna en ekki segja upp starfsfólkinu á meðan, en tímasetningin nú helgast af því að framleiðslan stöðvast alla jafna yfir jól og áramót hvort eð er, en nú verður sú stöðvun framlengd ótímabundið.

Félagið segist vinna náið með birgjum sínum vegna ákvörðunarinnar, en margir þeirra eru mjög háðir framleiðslu Boeing. Hlutabréf í Boeing féllu um 4% í gær vegna vangaveltna um stöðvun framleiðslunnar.