Tekjur bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing jukust um 27% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og jókst hagnaðurinn af starfseminni auk þess um átta prósent. Félagið afhenti 106 farþegavélar á tímabilinu, sem er það mesta í fimm ár, og á sama tíma jókst sala á hervélum. Bjart er framundan hjá félaginu en pantaðar hafa verið 544 Boeing-787 vélar og verða þær teknar til notkunar á næsta ári. Boeing-787 vélarnar eiga að vera sparneytnari á eldsneyti en aðrar sambærilegar vélar á markaðinum.