Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing segir að meiri tíma þurfi til að klára hugbúnaðaruppfærslu fyrir Boeing 737 Max vélarnar sem kyrrsettar hafa verið síðan tvö alvarleg slys urðu með slíkri vél í flugtaki á innan við fimm mánuðum.

Talið er að rekja megi flugslysin til hugbúnaðar sem ætlað er að koma í veg fyrir ofris vélarinnar, en bæði slysin gerðust nokkrum mínútum eftir flugtak, annars vegar í Indónesíu og hins vegar í Eþíópíu.

Í síðustu viku ætlaði félagið að skila inn lokaskýrslum um uppfærsluna til bandarískra loftferðayfirvalda fyrir 29. mars, en nú segir félagið að uppfærslan verði ekki tilbúin fyrr en á komandi vikum.

Uppfærslunni er ætlað að draga úr því að búnaðinn, kallaður MACS, taki jafnákveðið yfir og vísi nefi vélarinnar niður á við, auk þess að draga úr því að hann fari í gang þegar önnur kerfi bili að því er Bloomberg greinir frá.

Allar Boeing 737 Max vélar hafa verið kyrrsettar frá 13. mars, þar með talið þrjár vélar í eigu Icelandair, en félagið hugðist fá fleiri inn í flugflota sinn fyrir sumarið. Icelandair hefur nú fengið tvær Boeing 767 vélar til að koma inn í leiðarkerfi sumarsins, ásamt því að félagið vinnur að því að fá þá þriðju.