*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 15. mars 2019 09:37

Boeing vélarnar kyrrsettar til maí

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum segja Boeing 737 Max vélarnar þurfa prófun á nýjum hugbúnaði áður en fljúga á ný.

Ritstjórn
Þrjár Boeing 737 Max 8 vélar eru í eigu Icelandair, og hefur félagið lagt upp með kaup á 12 til viðbótar.

Allar Boeing 737 Max 8 og 9 vélar verða kyrrsettar að minnsta kosti fram í maí að því er flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum, US Federal Aviation Administration, hefur tilkynnt. Verður vélunum ekki flogið fyrr en búið verður að prófa hugbúnaðaruppfærslu og koma henni fyrir í öllum vélunum.

Bannið kom til eftir tvö mannskæð flugslys á 5 mánaða tímabili, sem líkt og BBC segir frá hefur verið bent á að margt svipi til, en bæði gerðust þau skömmu eftir flugtak. Eru uppi kenningar um að rekja megi þau til hugbúnaðar sem eigi að koma í veg fyrir ofris vélanna, og vanþekkingar flugmanna á virkni hans og hvernig aftengja eigi búnaðinn í neyð.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sagði Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair að bann við notkun vélanna, myndi fara að bíta á félagið ef það næði fram yfir páska, sem eru 21. apríl næstkomandi. Viðskiptablaðið sagði svo frá því þegar Bretar bættust í hóp þeirra þjóða sem hafa bannað notkun vélanna. 

Í kjölfarið hætti flugfélagið hætti notkun á vélunum sínum þremur eftir og sagði forstjórinn að þar með væri notkun þeirra sjálfhætt. Flugfélagið hefur fjármagnað kaup á 9 vélum til viðbótar af 12 sem það hefur lagt inn pöntun fyrir. Á þriðjudag höfðu Rússar, Japanir og Túnis bæst í hóp þjóða sem bönnuðu notkun vélanna og loks bannaði FAA í Bandaríkjunum notkun vélanna á miðvkudag.

Þingmaður í Bandaríkjunum, Rick Larsen segir að það muni taka nokkrar vikur að klára hugbúnaðaruppfærsluna, og að það muni að minnsta kosti taka út apríl að uppfæra hann í búnað vélanna.

Ekki er enn búið að vinna úr niðurstöðum úr flugritum vélanna tveggja, en rannsóknaraðilar í Frakklandi hafa tekið yfir svarta kassann úr flugvélinni sem hrapaði í Eþíópu á sunnudag.