Bandaríski flugmálaframleiðandinn Boeing ræðir nú við banka um að fá 10 milljarða Bandaríkjadala, eða andvirði um 1.242 milljarða króna lán, eða jafnvel hærra vegna vandræðanna með Boeing 737 MAX vélarnar.

Virðist sem Boeing sé þegar búið að tryggja sér 6 milljarða dala lán frá bönkum og er nú í viðræðum við aðra lánveitendur um frekari lán að því er bæði CNBC og Reuters greina frá.

Samkvæmt fréttum frá því fyrir helgi virðist sem ólíklegt sé að FAA, bandarísk flugmálayfirvöld, muni heimila að vélarnar sem kyrrsettar hafa verið frá því í mars á síðasta ári, komist í loftið fyrr en í fyrsta lagi í mars á þessu ári, en það gæti tekið fram í apríl eða lengur.

Jafnframt hefur Boeing staðfest þær fréttir sem Viðskiptablaðið greindi frá fyrir jól að enn sé hlé á framleiðslu vélanna frá því að hefðbundið jólahlé var gert.