Bandarísku flugvélasmiðirnir hjá Boeing eiga í viðræðum við fjögur flugfélög í Miðausturlöndum um sölu á allt að 255 Boeing 777X-farþegaþotum, sem eiga að vera sparneytnari en aðrar þotur. Bloomberg-fréttaveitan segir kaupverðið geta numið 87 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 10.400 milljarða íslenskra króna. Þýska flugfélagið Lufthansa hefur þegar pantað 34 þotur af þessari gerð.

Fréttaveitan segir jafnframt þetta góðar fréttir fyrir Boeing eftir vandræðaganginn í kringum 787 Dreamliner-þoturnar sem voru kyrrsettar í Japan í rúma þrjá mánuði þegar bilun kom upp í þeim.

Bloomberg segir jafnframt að nýju þoturnar geti brugðið fæti fyrir Airbus sem flaggar farþegaþotunni A350. Fyrsta þotan þeirrar gerðar verður afhent Qatar Airways á næsta ári . Þegar hafa 38 flugfélög pantað 756 vélar af þessari gerð frá Airbus.